Viðtal við Sigríði K. Þorgrímsdóttur og Kristján Þ. Halldórsson verkefnastjóra Brothættra byggða hjá Byggðastofnun.Í greiningu Byggðastofnunar á „Byggðarlögum sem búið hafa við langvarandi fólksfækkun“ frá 2008 og 2012 telst um helmingur sveitarfélaga í landinu til brothættra byggða. Þar er byggð með fólksfækkun sem nemur a.m.k. 15% á 15 ára tímabili er skilgreind sem brothætt byggð.
Verkefnið Brothættar byggðir hófst á Raufarhöfn en Kristján Þ. Halldórsson var ráðinn verkefnisstjóri í mars 2013. Verkefnið nær í dag til sjö samfélaga, Raufarhafnar, Breiðdalshrepps, Skaftárhrepps, Bíldudals, Kópaskers og nærsveita, Grímseyjar og Hríseyjar, sjá nánar www.byggdastofnun.is/is/brothaettar-byggdir
Ástæður þess að byrjað var á Raufarhöfn voru að aðstæður þar voru sérstaklega aðkallandi, yfir 50% fólksfækkun á fimmtán árum, hækkandi meðalaldur og samdráttur í atvinnulífinu. Mörg samfélög á Íslandi hafa liðið fyrir viðvarandi fólksfækkun en til þessa hefur ekki tekist að snúa vörn í sókn. Með Brothættum byggðum er verið að þróa aðferð til að taka á vandanum í samstarfi við íbúa hvers byggðarlags og við erum að leita leiða til að ná sem bestum árangri segir Kristján. Sigríður kom að verkefninu með þekkingu úr greiningarvinnunni þar sem hennar hlutverk var að heimsækja byggðirnar, hitta sveitarstjóra og íbúa. Það skiptir máli að hafa sjálf ekið ónýta vegi og upplifað lélegt net- og símasamband, með þessum heimsóknum byggði ég bæði upp tengsl og öðlaðist þekkingu á stöðu mála í samfélögunum segir Sigríður.
Ný nálgun og þátttaka íbúa
Aðspurð um hvort þau þekktu til svipaðra verkefni erlendis frá þá kom fram að farið hafði verið í heimsókn til Noregs til að kynna sér þá aðferðafræði sem þar er beitt til að efla brothættar byggðir. Í Noregi er áherslan á atvinnulífið og fyrirtækin, okkar verkefni horfir meira til samfélagsins alls, leggur áherslu á að byggja upp jákvætt andrúmsloft, skapa umræðu og vinna með hugmyndir heimamanna um nýsköpun og samfélagsþróun. Í aðdraganda verkefna er skipuð verkefnisstjórn og í kjölfarið er haldið íbúaþing þar sem hugmyndavinna fer fram og lögð eru fyrstu drög að áherslum í verkefninu, sem síðan er unnið áfram með í stefnumótunarvinnu og markmiðssetningu. Byggt á niðurstöðum þessarar vinnu er ráðinn verkefnisstjóri sem vinnur áfram með heimamönnum að þróun hugmynda hvort sem þær tengjast nýsköpun, umbótum á innviðum eða samfélagsþróun.
Sigríður og Kristján tóku þátt í tilraunakennslu á vinnustofum á vegum FIERE verkefnisins (www.fiereproject.eu) um nýsköpunarvirkni og samfélagsþróun í lok október á síðasta ári. Vinnustofan var skipulögð út frá þremur meginþáttum þ.e. sköpunarkrafti og nýsköpun, greinandi hugsun og útsjónarsemi og að lokum leiðtogahæfni og seiglu. Við erum sammála um að það er mikilvægt að þjálfa þessa þætti í brothættum byggðum en verið er að skoða hvort ekki megi nýta reynsluna af verkefninu til að efla enn frekar bæði verkefnisstjóra og frumkvöðla í samfélögunum. Við þurfum að vera skapandi og koma auga á tækifæri sem meðal annars gætu falist í sérstöðu hvers byggðarlags segir Kristján.
Við erum bjartsýn á að ná að halda áfram að þróa verkefnið, en ekki er hægt að vinna samtímis með öllum samfélögunum sem þurfa á aðstoð að halda. Það er pólitískur vilji og skilningur á mikilvægi þessa verkefnis. Verkefnið er lærdómsferli og við teljum að það geti jafnvel verið betra fyrir samfélög að koma síðar að því, þegar við höfum náð að samþætta og þróa betur aðkomu ólíkra hagsmunaaðila s.s. stjórnvalda, íbúa og stoðkerfisins í landshlutanum segja Kristján og Sigríður.
Áskoranir og árangur af verkefninu
Aðspurð um þær áskoranir sem Brothættar byggðir standa frammi fyrir þá voru þau sammála um að hækkandi meðalaldur íbúa væri helsta áhyggjuefnið, unga fólkið fer og snýr ekki aftur. Oft hafa undirstöður atvinnulífsins brotnað t.d. þegar kvótinn var seldur úr byggðarlagi. Þegar samfélög reiða sig á eitt stórt fyrirtæki þá er voðinn vís ef fyrirtæki ákveða að leggja niður starfsemi eða flytja sig. Oft er erfitt að kaupa húsnæði þar sem engin hús eru byggð vegna aðstæðna á fasteignamarkaði og þá er jafnframt erfitt að fá leiguhúsnæði, segja Kristján og Sigríður.
Hvaða árangri hefur verkefnið skilað? Okkur finnst meiri bjartsýni meðal íbúa, ekki saman að jafna andrúmsloftinu sem var á fyrsta íbúafundinum 2012 og þeim sem var haldinn í október 2015. Þessa breytingu má bæði skýra með auknu sjálfstrausti og einnig útfrá auknum stuðningi stjórnvalda t.d. í formi byggðakvóta sem var innspýting fyrir atvinnulífið á Raufarhöfn segja Kristján og Sigríður.