FIERE verkefninu er nú lokið, verkefnið sem er evrópskt samstarfsverkefni 6 stofnana og fyrirtækja í 5 löndum sem fól í sér þarfagreiningu, þróun námsskrár og námsefnis tengt nýsköpunarvirkni hjá stofnunum, fyrirtækjum, sjálfboðaliða- og félagasamtökum er tengjast svæða og samfélagsþróun. Svæðisráð Tipperary í Írlandi stýrir verkefninu.
Verkefnið hófst í ársbyrjun 2014 og var til tveggja ára. Einurð ehf var eini íslenski þátttakandinn og bar ábyrgð á verkefnis- og ritstjórn í vinnupakka 4 þar sem unnar voru „case studies“ eða dæmisögur um verkefni sem draga má lærdóm af er kemur að nýsköpunarvirkni og samfélagsþróun. Dæmisögurnar voru notaðar sem hluti af námsefni á FIERE vinnustofunum sem haldnar voru af Einurð og Símenntun Háskólans á Bifröst á Íslandi þann 26. október á Sauðárkróki í samstarfi við Byggðastofnun og þann 14. nóvember fyrir hóp kvenna sem áttu það sameiginlegt að vilja hafa áhrif á sitt nærumhverfi og samfélag í vinnu sinni eða félagsstarfi. Af 26 þátttakendum á vinnustofunum lýstu 10 sig reiðubúna til að verða hluti af samstarfsneti FIERE ráðgjafa eða mentora sem vilja nýta sér námsefni og nálgun verkefnisins í starfi sínu. Finna má niðurstöður verkefnisins á heimasíðu þess.